Ferill 824. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1496  —  824. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um rannsóknir og veiðar á humri.


     1.      Eru fyrirhugaðar frekari rannsóknir á humarstofninum í sumar? Ef svo er, hvaða rannsóknir? Ef svo er ekki, hver eru rökin fyrir því?
    Rannsóknaleiðangur er fyrirhugaður 6.–16. júní næstkomandi þar sem fjöldi humarhola verður metinn á þekktri veiðislóð. Dreginn verður sleði með myndavélum á um 4,5 sjómílna neti og humarholur og lífverur taldar á 10 mínútna sniði á hverri stöð (um 90 stöðvar), samkvæmt forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um humarholuleiðangra (UWTV). Einnig verða tekin svifsýni til að meta þéttleika humarlirfa auk nokkurra sýna með humarvörpu til að skoða lengdarsamsetningu stofnsins.

     2.      Er til áætlun um rannsóknir sem skýri nýliðunarbrest í humarstofninum sem vísindamenn hafa ekki skýrt?
    Ekki er til ítarleg áætlun um rannsóknir sem gæti skýrt að fullu þá ferla sem leiða til árangursríkrar nýliðunar hjá leturhumri. Slík rannsókn þyrfti að vera mjög umfangsmikil, hún þyrfti að vakta marga þætti í lífsferli dýranna yfir langt tímabil en auk þess þyrfti umfangsmiklar mælingar á umhverfisþáttum. Rannsóknum sem stefna að því að skýra út með fullnægjandi hætti nýliðun tegunda sem hafa sviflægt lirfustig hefur verið líkt við hnút Gordíons, sem samkvæmt þjóðsögum var sagður óleysanlegur. Þrátt fyrir mikla þróun í líkanagerð, við að herma m.a. ástand sjávar og flutning lirfa, er enn langt í land með að við náum að skilja fyllilega þá þætti sem stuðla að nýliðun nytjategunda. Oft er það skortur á sýnum og beinum mælingum sem gerir það erfitt að stilla slík líkön af. Unnið er að því samhliða vöktun á veiðanlega hluta stofnsins að auka þekkingu okkar á dreifingu humarlirfa, en það er lífsskeið sem er bæði illa þekkt við Ísland en einnig á flestum öðrum svæðum þar sem tegundin finnst. Einnig er vinna í gangi hjá Hafrannsóknastofnun við að skoða og greina þau gögn sem liggja nú þegar fyrir um nýliðunarbrest.

     3.      Hver er stefna ráðherra að því er varðar það hvenær og hvernig veiðar á humri verða endurvaktar?
    Ekki er hægt að segja til um það að svo stöddu hvenær veiðar á humri verða endurvaktar, en gert er ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun fylgist með stofninum og að veiðar verði endurvaktar þegar Hafrannsóknastofnun telur það ráðlegt.